Til baka
Til baka
#reykjavikartsfestival2018 #listahatid2018
12
október

Þema Listahátíðar 2018 er „HEIMA“

Þema Listahátíðar árið 2018 verður HEIMA.

Þó viðburðir Listahátíðar 2018 verði afar fjölbreyttir bæði að gerð og innihaldi tengjast þeir flestir í gegnum yfirskrift hátíðarinnar: ,,Heima”.  Stundum liggur tengingin við þemað á yfirborðinu en í öðrum tilfellum gæti þurft að grafa örlítið undir yfirborðið til að finna hana. 

Þemað skapar merkingarbært samhengi og dýpt í verkefnaval hátíðarinnar og tengir og speglar annars óskylda viðburði á áhugaverðan hátt.

 

HEIMA í pólitískum / samfélagslegum skilningi

Meðal annars má skoða hugmyndina um „heima“ í ljósi breyttrar heimsmyndar og þeirrar hreyfingar sem nú er komin á jarðarbúa bæði vegna stríðs- og efnahagsástands. Hvað er heima fyrir þeim sem hefur misst allt? Að hve miklu marki hefur aukin ferðamennska, netheimar og alþjóðavæðingin haft áhrif á hugmyndir okkar um heima?

 

HEIMA í sögulegu samhengi

Heima má líka skoða í bæði jarðsögulegu, sögulegu og menningarsögulegu samhengi. Árið 2018 verða liðin 100 ár frá því Ísland hlaut fullveldi. Hvað er heimaland? Hvernig tengist „heima“ sjálfsmynd einstaklinga og þjóðar?

 

HEIMA í persónulegu / listrænu samhengi

Hvenær líður okkur eins og við séum heima? Hvað tengir okkur við staði og annað fólk á þann hátt að okkur finnst við vera komin heim? Er listin sjálf ef til vill eilíf leit að þessari tengingu?